STEKKUR
FJÁRFESTINGAFÉLAG
Traust fjárfestingafélag byggt á sterkri arfleifð
Stekkur fjárfestingafélag er öflugt fjölskyldufyrirtæki, stofnað árið 2010. Stofnendur voru feðginin Kristinn Aðalsteinsson og Guðlaug Kristbjörg Kristinsdóttir, sem hafa leitt félagið frá upphafi sem stjórnarformaður og forstjóri.
Stekkur hefur vaxið á undarförnum árum, samhliða því að stærstu félögin í eignasafninu hafa dafnað. Stekkur er virkur fjárfestir með skýra sýn á rekstur, stefnu og hlutverk sinna félaga. Þeirri sýn hefur Stekkur fylgt eftir með aukinni hlutdeild í lykilfélögum og er nú eini eigandi Securitas, auk þess að fara með 80% hlutafjár í Límtré Vírnet.
Stekkur byggir á arfleifð Aðalsteins Jónssonar, útgerðarmanns frá Eskifirði sem markaði djúp spor í atvinnulíf Austurlands um áratugaskeið með framsýni sinni, þrautseigju og heiðarleika. Aðalsteinn skildi samspil atvinnulífs og mannlífs og fyrirtæki í hans eigu lögðu mikið til samfélagsins. Í þeim urðu til fjölmörg störf og verðmæti sem styrktu innviði þess – ekki aðeins efnahagslega, heldur líka menningarlega og félagslega.
Þessa hugmyndafræði fengu stofnendur Stekks í heimanmund og reka félagið í anda hennar. Fyrir vikið eru dótturfélög Stekks samfélagslega þenkjandi, með starfsemi og þjónustu um nær allt land. Eiginlegar starfsstöðvar eru m.a. á Flúðum, Reykjanesi, Eskifirði, Akureyri, í Borgarnesi og við Lyngháls og Tunguháls í Reykjavík.
Fjárfestingafélagið Stekkur er stolt af sínum fyrirtækjum, þeim vörum og þjónustu sem þau veita, áhrifum á nærsamfélagið og framlagi þeirra til vistvænni heims. Stekkur mun áfram styðja við sín félög, með áherslu á frekari vöxt og þróun í samræmi við skýra fjárfestingastefnu.

Eignarhald á öflugum félögum
Stekkur er stoltur eigandi að framúrskarandi dótturfélögum




Heildarstærð dótturfélaga
Byggt á sterkri arfleifð
Aðalsteinn Jónsson (1922–2008) var einn áhrifamesti atvinnurekandi landsins á 20. öld og lykilmaður í þróun sjávarútvegs á Austurlandi. Hann ólst upp við bágan kost en vann sig upp með ósérhlífni og seiglu, hóf ungur störf á sjó og eignaðist sinn fyrsta hlut í bát árið 1946. Árið 1960 tók hann við stjórn nánast gjaldþrota Hraðfrystihúss Eskifjarðar og umbreytti því í eitt öflugasta fyrirtæki landsins, sem hann stýrði í 41 ár. Undir hans stjórn varð fyrirtækið ekki aðeins burðarás í atvinnulífi heldur lykilaðili í uppbyggingu samfélags á Austfjörðum. Fyrir framlag sitt hlaut Aðalsteinn bæði Riddarakross og Stórriddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu.
Aðalsteinn Jónsson
Saga félagsins
2010 – Stekkur fjárfestir í 34% hlut í Securitas og 45% hlut í Límtré Vírnet
2014 – Stekkur eykur við hlut sinn í Securitas og eignast 56% hlut
2015 – Securitas kaupir Geymslur ehf
2020 – Vari fasteignarfélag er stofnað utan um fasteignir Securitas samstæðunnar
2021 – Stekkur kaupir 35% hlut Bingo ehf í Límtré Vírnet og eignast um 80% hlutfé
2024 – Stekkur kaupir aðra hlutafhafa út og eignast alla Securitas samstæðuna